- Advertisement -

Íslensk mannvonska

sme lllFréttirnar af Kópavogshæli eru vondar. Þær eru meiðandi. Ekki er með nokkrum hætti hægt að sættast á hvernig við höfum komið fram við varnarlaust eða varnarlítið fólk. Alls ekki.

Sjálfur kom ég, sem ritstjóri DV á þeim tíma, að úttektunum um Breiðuvík, Kumbaravog, Bjarg og fleiri stofnanir. Ég, og þeir blaðamenn aðrir sem unnu að skrifunum, kynntumst hreint ótrúlegum ljótum hlutum. Ömurlegri mannvonsku. Nú bætist Kópavogshæli við.

Viðurkennum þrælahald

Síðustu daga hafa líka birst fréttir þar sem fólki er meinað að koma hingað til að heimsækja ættingja sína. Bæði eru þau frá Sri Lanka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

ÞrælahaldFyrst kom frétt af því að ungri konu sem á systur hér, konu sem var ættleidd hingað sem ungt barn, og er íslensk og hefur alið sinn aldur hér, er meinað að koma til að hitta systur sína. Rökin eru þau að Íslendingar óttast að hún ætli að setjast hér að. Þvílíkur ótti.

Hin fréttin er um mann, einnig frá Sri Lanka, en sá býr í London, og er faðir íslenskrar konu. Hann vill koma til Íslands til að heimsækja dóttur sína. Honum er það meinað þar sem Íslendingar óttast að hann hyggist setjast að á Íslandi. Þvílíkur ótti.

Á sama tíma kemur frétt þar sem Vinnumálastofnun opnaði vefsíðu gegn þrælahaldi. „…þar sem nálgast má helstu upplýsingar um réttindi og skyldur starfsmannaleiga sem senda erlent starfsfólk til starfa á Íslandi.“ Vinnuframsal er spariheiti yfir þrælahald. Við viðurkennum þrælahald og eina vörn okkar er sú að opna netsíðu þar sem má finna máttlausar leiðbeiningar.

Samkeppni við þrælahald

Að því gefnu að ótti Íslendinga kunni að vera réttur, að unga konan frá Sri Lanka hyggist setjast hér og eins faðirinn, hvað þá? Því má fólkið það ekki? Er eitthvað að fólkinu? Nei, það er ekki þess vegna. Við erum bara svona. Við erum vond.

Ég tala af reynslu. Ég hef persónulega reynslu af þessu kerfi. Ég hef barist við það. Ekki fyrir mig. Heldur lagði ég fólki lið. Ég sá kerfið og reyndi það. Við erum vond. Margt sem ég glímdi við er þannig að ómögulegt er að gleyma því sem þurfti að berjast við. Sigur vannst.

Meðan við meinum fólki að koma hingað gerum við nánast ekkert til að koma í veg fyrir þrælahald. Það er markaður fyrir þræla. Það vantar fólk og því er framboð af þrælum. Á sama tíma berjumst við gegn því að frjálst fólk komi til okkar. Ástæðan er sögð vera sú að Íslendingar óttist að fólk vilji setjast hér að. En hvers vegna? Er það afþvíbara?

Þrátt fyrir mannvonskuna sem hér tíðkast verðum við áfram, hvert og eitt okkar, að berjast gegn mannvosku hér sem og annarsstaðar í heiminum. Ríkjandi kerfisviðhorf verða að hverfa.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: