- Advertisement -

Er minn sparnaður á Tortóla?

sme lllSPRENGISANDUR Fyrir hrun hafði ég hærri laun en ég þurfti til framfærslu og afborganna.  Ég þáði ráðleggingu bankans sem ég á í viðskiptum við og tók að safna peningum eftir þeim leiðum sem mér voru kynntar. Inneign mín jókst hægt og hægt. Allt hljómaði vel.

Svo kom hrunið. Inneignir mínar hurfu á svipstundu. Mér var brugðið. Ofan í allt saman lækkaði kaupið, sparnaðurinn fór sem og launin. Samt tók ég þessu vel. Fór i bankanna og átti tal við starfsmanninn sem hafði flutt mér ráðin til fjárfestinganna og sagðist ekki kenna honum um. Var viss um að sá hafði aðeins borið mér það sem honum hafði verið talin trú um að væri satt og væri rétt.

Ég varð spældur þegar þetta gerðist, fór ekki í fýlu og varð ekki reiður yfir eigin óförum. Staða Íslands var þá alvarlegri en svo að mínar raunir þættu eitthvað sérstakar, eða væru eitthvað sérstakar.

Nú má segja að ég hafi verið sem vakinn af mínum væra blundi. Nú er ég spyrjandi. Kann að vera að peningarnir sem ég setti inn í bankann fyrir hrun hafi farið til annarra viðskiptavina, þeirra sem þáðu allt aðrar ráðleggingar frá þessum sama banka, þáðu  ráðleggingar um að fara með peningana til Lúxemborgar og þaðan í algleymið og svartholið. Í skjólin frægu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Krónan verður gjaldmiðill, hverra?

Við vitum hvernig eiginkona forsætisráðherra varð auðug. Ég held að flestir aðrir sem eiga peninga á sama stað og forsætisráðherrann og hans frú hafi ekki endilega komið þangað sjálsaflafé. Nei, alveg örugglega lánspeningum, kannski peningunum mínum, eða þínum, ágæti hlustandi. Fjárfestingunum okkar sem voru afskrifaðar í einum grænum. Ef fótur er fyrir því sem ég er að segja þá hefur það fólk rofið friðinn, efnt til siðrofs í samfélaginu. Ég bíð sannanlega spenntur eftir Kastljósinu í kvöld.

Er það ekki annars merkilegt að það fólk sem, þrátt fyrir að hafa sagt allt annað fyrir síðustu kosningar, hafi komið í veg fyrir að umræður um aðild Íslands að myntbandalagi hættu samstundis. Meðal okkar er margt fólk sem þráir aðra kosti en íslensku krónuna, rétt einsog aðallinn hefur valið fyrir sig og sína.

„Krónan verður gjaldmiðill Íslendinga í fyrrirsjáanlegri framtíð.“ Þannig skrifuðu þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson í sáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þeir hljóta að hafa hlegið innra með sér þegar þeir skrifuðu þetta, en samt í hljóði, þar sem þeir vissu ekki þá að hvor um sig, að báðir höfðu þeir komið sínu fyrir í öðru myntkerfi. Mismikið að vísu.

Auðvitað hefði þeir átt að vera strangheiðarlegir og skrifa neðanmáls hvaða Íslendinga þeir áttu við, þegar þeir skrifuðu „Krónan verður gjaldmiðill Íslendinga í fyrrirsjáanlegri framtíð.“

Alltof margir Íslendingar hafa farið með peninga, trúlega sjaldan þá sem það hefur sjálft unnið fyrir, burt héðan, komið þeim fyrir í öðrum gjalddmiðlum og það fólk þarf þess vegna ekki að taka sömu ábyrgð á okkar viðkvæma efnahagskerfi og við hin. Og ef við bætist og sannast að sparnaður okkar hinna, sem var sagður hafa gufað upp í hruninu, er nú geymdur á nöfnum einhverra annarra fjarri Íslandsströndum, verður okkur nóg boðið.

Þingmenn í lífróðri

Ég skal vera manna fyrsur til að skilja málflutning þeirra stjórnmálamanna sem láta einskis ófreistað til að verja foringja sína falli. Þeir vita sem er, falli foringinn, falla þeir. Þeir stjórnmálamenn róa nú lífróður til bjargar eigin stöðu, til að geta með einhverju móti haldið áfram að vera það sem þeir eru; það er að starfa á Alþingi Íslendinga.

Vissuelga hefur verið óvenju mikill friður um íslensku krónuna, þökk sé helst utanaðkomandi aðstæðum. Hækki verð á olíu og bensíni og öðrum innfluttum nauðsynjum breytist kyrrð krónunnar í ókyrrð á einu augabragði. Svo viðkvæm er staða okkar, okkar það er þeirra Íslendinga sem taka fullan þátt í íslensku hagkerfi.

Eitt af því sem hefur orðið til í því geggjaða ástandi sem hér er að verða, er að ríkt fólk sé betur til þess fallið að stjórna landinu en annað fólk, að það fólk sé engu háð og gagnist því betur.

Bíðum aðeins hér. Ekki fæ ég betur séð en að þetta ríka fólk sé háð einum versta lösti mannskepnunnar; það er græðginni. Fólkið er tilbúið til að svíkja lit, til þess að svala löstum sínum. Þá má vera að þau okkar sem hafa í lífinu haft áhyggjur af eigin stöðu og annarra sé bara alls ekki síður til þess fallið að stjórna samfélaginu okkar.

Sigurjón Magnús Egilsson

Hluti af innangi úr Sprengisandi frá 3. apríl s.l.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: