- Advertisement -

Mun Framsókn stöðva Bjarna?

Skoðun Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, svaraði aðspurður í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni síðasta sunnudag, að hann hyggðist lækka hærra stig virðisaukaskattsins og hækka neðra þrepið, sem sagt, hækka matarskattinn. Þetta ætlar hann, samkvæmt því sem hann sagði á sunnudaginn, að kynna samtímis fjárlagafrumvarpinu, en lögum samkvæmt ber honum að kynna þá tekjuáætlun ríkisins á næsta ári.

Þetta voru mikil pólitísk tíðindi, þó svo sumar fréttastofur hafi verið seinar að átta sig á stærð fréttarinnar. Síðustu daga hafa fréttir af áformum Bjarna verið stærsta pólitíska fréttin. Eðlilega. Áður hefur matarskattur verið hart deiluefni innan ríkisstjórnar og eflaust átt þátt í að ríkisstjórn hrökklðaðist frá völdum. En helsta deilumálið innan ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar á níunda áratug síðustu aldar var um matarskattinn. En til nútímans.

Innan Framsóknarflokksins er mikil andstaða við hækkun matarskattsins. Vigdís Hauksdóttir hefur sagt það. Sigrún Magnúsdóttir hefur sagt það og sama hefur Karl Garðarson gert. Ekki er minnsti vafi á að Framsóknarmenn munu, margir hverjir, leggjast gegn áformum Bjarna Benediktssonar.

Þá kemur upp ný staða. Í þættinum Sprengisandi sagði Bjarni að hann geri ráð fyrir að vörugjöld lækki, persónuafsláttur hækki og barnabætur sömuleiðis og þannig verði margt gert til að þeir sem veikast standa fái sinn hlut, af hærra matarverði, bættan.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Allt þetta og viðbrögð Framsóknarmanna gerir margan Sjálfstæismannninn ósáttan. Þeir sem rætt hefur verið við segja Framsóknarmenn spila einfaldasta og ömurlegasta leik stjórnmálamanna. Það er að gera það sem fólki kann að þykja hljóma best, að sinni skoðun. Þeir segja lágmark að talsmenn Framsóknarflokksins skoði alla myndina áður en þeir leggist gegn áformum fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Yngri Sjálfstæðismenn hafa skorað á forystu flokksins að endurskoða stjórnarsamstarfið. Fari svo að Bjarni verði að beygja frá ákvörðun sinni er ekki nokkur vafi á að það mun draga dilk á eftir sér.

Nú er horft til hvernig Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni tekst að miðla málum innan eigin flokks. Sennilega sættast Sjálfstæðismenn ekki á neina málamiðlun. Gerð fjárlagafrumvarpsins er langt komin og trúlegast er að fjármálaráðherrann gefi ekk eftir þau áform sem hann hefur uppi.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: