- Advertisement -

Fréttaskýring: Siðblindir við stjórn

Fréttaskýring Meðal fagfólks er almennt talið að tvö til fjögur prósent karla séu siðblindir og eitt prósent kvenna eða tvö prósent fólksfjöldans í heild. Ennfremur er uppi tilgáta um að hlutfallið meðal stjórnenda sé hærra en þetta.

Engir tveir menn eru eins, heldur ekki siðblindir. Sum skapgerðareinkenni munu því ekki vera til staðar og þau eru mismunandi áberandi í hverjum og einum. Loks er áríðandi að muna að það sem skilur siðblinda frá venjulegu fólki snýst kannski frekar um magn en gæði – sem sé: einkenni um siðblindu er einnig að finna í öllu öðru fólki – bara í miklu minna mæli. Þótt einhver verði uppvís að lygi, eða hafi stórt skap, þýðir það ekki að viðkomandi sé siðblindur. Það þarf að vera um að ræða viðvarandi skapgerðareinkenni árum saman – og í miklum mæli.

Tilgangurinn með yfirlitinu er ekki að fólk noti það til þess að greina aðra. Látum fagfólkið um það. Með því að skilja þessa siðblindueiginleika getum við þó verið skarpskyggnari á það fólk sem er í kringum okkur.

10 EINKENNI SIÐBLINDINGJA: 

  1. Skortur á samvisku
  2. Sök skellt á aðra
  3. Mögnuð sjálfsmynd
  4. Hvatvísi
  5. Smeðjulegur sjarmi
  6. Skortur á hluttekningu
  7. Auðvelt með að ljúga
  8. Yfirborðskenndar tilfinningar
  9. Léleg sjálfsstjórn
  10. Ráðskast með fólk

SKORTUR Á SAMVISKU

Hvernig veistu hvort þú hefur samvisku? Þú getur verið nokkuð öruggur um að hafa hana, hafirðu einhvern tímann haft samviskubit. Þótt lífið væri kannski auðveldara án samviskunnar væri samfélag skipað samviskulausum einstaklingum alveg hryllileg tilhugsun. Samviskan tryggir það að við högum okkur sæmilega því ef við gerðum það ekki gætum við ekki lifað með sjálfum okkur.

Siðblindingi getur þó alltaf lifað með sjálfum sér. Það sem skilur hann frá okkur er það að hann getur framið glæp eða gert eitthvað annað siðlaust, án þess að finna til votts af iðrun eða sektarkennd. Vegna þessa skorts á samvisku getur siðblindingi logið upp í opið geðið á þér; fullyrt að hann eigi heiðurinn af vinnunni þinni, misnotað traust fólks og alltaf komið með afsökun fyrir því að hafa ekki staðið sig sem skyldi, auk þess sem hann er snillingur í að finna blóraböggla fyrir misgjörðir sínar. Þessi skortur á samvisku gerir siðblindingjann líka ófæran um að taka á sig sök á nokkrum hlut sem gæti valdið honum eða henni minnstu óþægindum.

Sá sem ekki skammast sín fyrir misgjörðir sínar finnur ekki til neinnar skuldbindingar gagnvart samfélaginu, vinnuveitandanum eða félögum sínum. Það eina sem skiptir siðblindan mann máli eru hans eigin þarfir. Þess vegna telur hann sig ekki þurfa að hlíta þeim reglum sem gilda fyrir aðra; allt frá því að svindla sér ekki fremst í röðina til þess að taka ekki heiðurinn af annarra vinnu, níðast ekki á minni máttar eða stela ekki frá fátækum og sjúkum. Þessar reglur telur siðblindinginn ekki gilda fyrir sig; þvert á móti lítur hann niður á þá sem fara að slíkum óskráðum lögum. Því ekki að ljúga ef það kemur sér betur? Já, því ekki? Vegna þess að þá fengi maður samviskubit ef maður, vel að merkja, er með samvisku. Einungis óttinn við refsingu heldur aftur af siðblindingjanum. Hann eða hún hefur enga innri bremsu í formi samvisku.

SÖK SKELLT Á AÐRA

Það er erfitt fyrir aðra en sjálfan mann að afráða hvort samviskubit er fyrir hendi en auðvelt að sjá hvort einstaklingur getur tekið á sig sök. Helzta einkenni siðblindingja er að hann hafnar því að eiga sök á nokkrum hlut. Það sem gerðist er alltaf öðrum að kenna. Menn sem berja konur sínar fullyrða til dæmis að það hafi verið henni að kenna vegna þess að hún kom honum til þess. Hún gat bara hagað sér betur. Menn sem nauðga litlum börnum standa á því fastar en fótunum að barnið hafi viljað hafa mök við þá og reynt stíft við þá.

Það þarf þó ekki svona alvarleg brot til þess að sjá siðblindingja skella sökinni á aðra. Kom hann of seint á áríðandi fund? Það var af því að umferðin var hroðaleg, leigubíllinn kom ekki eða honum var gefinn upp rangur tími eða rangt heimilisfang. Lenti hann í útistöðum við einhvern? Það var alfarið hinum aðilanum að kenna. Stór atriði eða smá, það gildir einu. Lánsbókin sem hann týndi eða skipbrotið í hjónabandinu – það var öðrum að kenna. Ævinlega öðrum að kenna.

MÖGNUÐ SJÁLFSMYND

Dæmigerður siðblindingi á ekki í neinu basli með sjálfsmyndina – þvert á móti. Hvort sem eitthvað er til í því eða ekki telur hann sig stórsnjallan og að þess vegna eigi hann rétt á sérmeðhöndlun af lífinu og heiminum. Einmitt hann á skilið sérstaka virðingu og honum ber heldur ekki skylda til þess að láta stjórnast af reglum og öðrum takmörkunum. Þetta sjálfstraust og sannfæring um eigið ágæti gerir það að verkum að siðblindinginn er afar sannfærandi þegar hann situr í atvinnuviðtali um stjórnunarstarf. Þá eru því engin takmörk sett hvaða viðsnúningi siðblindinginn segist geta náð fram, þótt raunsæið myndi segja manni að slík kraftaverk væru ósennileg. Siðblindinginn segir það sem forstjórinn vill heyra og það truflar hann ekkert að lofa upp í báðar ermar. Eftir að hann fær stöðuna sefur hann jafn vel og fyrr; ef þetta reddast ekki lætur hann sér bara detta eitthvað annað í hug. Liðið er hvort eð er of heimskt til þess að uppgötva það.

Þessi magnaða sjálfsmynd gerir það líka að verkum að hann lítilsvirðir félagslegar reglur og skyldur. Þó telur hann sjálfsagt að aðrir borgi skatta, standi prúðir í biðröðum, mæti á réttum tíma og aki á leyfilegum hámarkshraða. Nú, ef þeir gerðu það ekki myndi þetta enda í hreinu stjórnleysi! Það er einungis siðblindinginn sem ekki þarf að fylgja reglunum. Allir vita jú að reglur gilda einungis fyrir litla manninn!

HVATVÍSI

Það getur gert hvern undirmann brjálaðan þegar yfirmaðurinn tekur skammtímaákvarðanir sem annað hvort þarf fljótlega að breyta eða virðast einfaldlega ekki rökréttar. Reyndar eiga margir siðblindir erfitt með að sýna skipulagssnilld – þeir hugsa fremur út frá kænskubrögðum og taka jafnvel ekki tillit til eigin langtímahagsmuna. Þetta hefur í för með sér að verk þeirra og viðbrögð geta verið öðrum fullkomlega óskiljanleg og ófyrirsjáanleg. Hvatvísin og óskin um að leggja áherslu á skammtímamarkmið tengist spennufíkn og ósk um að nú gerist eitthvað nýtt, á verði breytingar og að allt eigi nú að gera á annan hátt en áður.

SMEÐJULEGUR SJARMI

Flestir hafa tilhneigingu til þess að falla fyrir smjaðri og á þann hátt getur margur siðblindinginn smjaðrað og talað sig inn í hjörtu fólks og seðlaveski. Með smjaðri getur kænn siðblindingi tryggt sér gott starf, ágætis feril og vinsældir yfirmanna sinna. Að minnsta kosti upp að vissu marki.

SKORTUR Á HLUTTEKNINGU

Hluttekning snýst um að geta sett sig í annarra spor, fundið til meðaumkunar með öðrum eða samglaðst þeim, en þennan eiginleika hefur siðblindinginn ekki. Skorturinn á hluttekningu gerir það að verkum að siðblindinginn virðist tilfinningalaus gagnvart tilfinningaviðbrögðum annars fólks. Hann, eða hún, er algerlega ósnortinn af tilfinningum annarra vegna þess að tilfinningar annarra segja siðblindingjanum ekkert. Vegna þessa skorts á hluttekningu getur siðblindingi ekki talað um neitt annað en hversu óþægilegt það var fyrir hann að gera öðrum aðila skaða, viljandi eða óviljandi. Sá sem fyrir tjóninu varð er einfaldlega einskis virði í heimi siðblindingjans.

Skortur á hluttekningu gerir það að verkum að siðblindingi getur sagt hluti við fólk í erfiðri stöðu sem virðast verulega óviðeigandi. Hann getur líka birst í því að siðblindinginn skilur ekki að hann eða hún hefur móðgað samstarfsmann eða verið grófur gagnvart samningsaðila. Móðgaði samstarfsmaðurinn verður undrandi þegar siðblindinginn hagar sér eins og ekkert hafi átt sér stað, því hvað hann varðar átti ekkert sér stað sem skipti hann máli tilfinningalega. Þess vegna getur hann haldið áfram að haga sér eins og ekkert hafi gerst.

AUÐVELT MEÐ AÐ LJÚGA

„Eðlilegt“ fólk skammast sín ef það verður uppvíst að lýgi en slíkt hið sama á ekki við um siðblindingja. Hér er ekki átt við hvítar lygar sem almennt eru sagðar til þess að hlífa tilfinningum annarra, heldur lygar sem sagðar eru til þess að fá ekki skammir svo ekki komist upp um mann eða svo ekki þurfi að standa reikningsskil á þessu eða hinu.

Siðblindinginn er alla jafna hreykinn af því hve sannfærandi lygar hans eru og á til að skemmta fólki með því hvernig honum tókst að ljúga einhvern einfeldninginn fullan.

Siðblindinginn getur líka logið til um hluti sem aðrir gætu ekki fengið sig til. Þótt þú eða ég gætum logið okkur veik til þess að fá frídag, myndu fæstir fá sig til þess að ljúga upp andláti móður sinnar til þess að fá frí til að vera við jarðarförina. Það væri að kalla yfir sig refsingu skapanornanna, jafnvel fyrir fólk sem ekki er hjátrúarfullt. Þetta vefst ekkert fyrir siðblindingjanum.

Siðblindinginn lýgur líka gjarnan um bakgrunn sinn hvort sem það er að þykjast hafa próf sem ekki eru fyrir hendi eða að breyta fjölskyldusögu sinni í takt við það sem hann heldur að hafi mest áhrif á umhverfið. Ofurvenjulegt millistéttaruppeldi getur orðið að lúxuslífi hjá aðlinum eða sárustu fátækt án föður og hjá drykkjusjúkri móður.

Það sem kemur umhverfi siðblindingjans þó mest á óvart er tilhneigingin til þess að ljúga um kringumstæður sem auðvelt er að sannreyna. Hann heldur þó ekki að við séum svona vitlaus? Spyr fólk sig forviða. Jú, hann heldur það. Eða honum er nákvæmlega sama. Þegar lifað er út frá skammtímamarkmiðum hafa menn ekki endilega áhyggjur af því hvað mun gerast þegar umhverfið uppgötvar að allt sem maður hefur sagt er haugalýgi.

YFIRBORÐSKENNDAR TILFINNINGAR

Siðblindinginn getur ekki borið djúpar tilfinningar til annarra en sjálfs sín og þetta einkenni breytir miklu í einkalífi hans. Ást siðblindingja til fjölskyldu sinnar er þannig meira gleði yfir „eigum“ sínum en eiginleg ást.

Siðblindinginn getur þó orðið hrifinn og óskað þess að leggja undir sig og þannig virst yfir sig ástfanginn. Sá eða sú útvalda upplifir sig eftirsótta/n – og vaknar síðan upp við vondan draum oft án þess að skilja hvað henti.

Þar eð siðblindinginn getur sjarmerað fólk upp úr skónum, en skortir samtímis eiginleikann til þess að bera djúpar og varanlegar tilfinningar, getur hann sjaldnast átt í langtímasambandi. Þetta þarf ekki að þýða að hann gifti sig og skilji að jafnaði; það getur líka þýtt stöðugt framhjáhald í löngu sambandi. Aðallega skiptir þetta máli í einkalífi siðblindingjans en getur haft áhrif á vinnustað hans þar eð skortur á djúpum tilfinningum getur haft áhrif á getu manna til þess að auðsýna hollustu.

Loks getur vitneskja um visst mynstur í einkalífi fólks gefið vísbendingu um hvers konar manneskju maður á í höggi við.

LÉLEG SJÁLFSSTJÓRN

Allir geta átt það til að missa þolinmæðina eða æsa sig en siðblindingjar eiga sérlega erfitt með að bæla niður pirring og árásargirni. Þess vegna eru reiðiköst og skapofsi, sem bitna á saklausum á vandræðalegan hátt, einkennandi fyrir siðblindingjann. Hann kærir sig kollóttan og telur það ekki fyrir neðan virðingu sína að missa stjórn á sér.

Oft er það sem veldur reiðikastinu einhverjir smámunir en það er einkennandi fyrir siðblindingja að tryllast af æsingi yfir smámunum sem kemur til af því að vonbrigða- og árásarþröskuldur hans er afar lágur.

Óskiljanlegar reiðiuppákomur og skapofsaviðbrögð við þeim skapraunum sem flestir lenda í eru einkennandi fyrir siðblindingjann.

RÁÐSKAST MEÐ FÓLK

Til þess að geta ráðskast með fólk þarf viðkomandi að vera sannfærandi og fá fólk til þess að trúa á sig. Þá er hægt að fá fólk til þess að gera hluti sem eru því í óhag; hvort sem það er að lokka það út í vafasamar framkvæmdir eða hlutabréfakaup eða að sannfæra það um að verið sé að safna inn fyrir góðgerðastarfsemi, sem raunar er aðeins fyrir einn aðila.

Siðblindinginn þarf þannig að virðast sannfærandi þótt hann sjálfur hafi enga sannfæringu og hann þarf að vilja koma öðrum á hálan ís til þess að græða sjálfur.

Þó þarf ekki að vera um beint svindl að ræða. Siðblindinginn  getur til dæmis fengið samstarfsmann til þess að taka að sér verkefni fyrir hann, þótt hann hafi lofað sér annað eða sannfært yfirmanninn um að hann sé sá rétti í verkefni sem ætlað var öðrum – og hann getur beitt fyrir sig beinum eða óbeinum hótunum.

Próf:

ER YFIRMAÐUR ÞINN SIÐBLINDUR?

(Þú getur notað prófið til þess að skilja fólkið í kringum þig betur – ekki til þess að stimpla aðra sem siðblinda)

 2 stig fyrir hvert „já“ svar.

1 stig fyrir hvert „kannski“ eða „að hluta til“ svar.

0 stig fyrir hvert „nei“ svar. 

  1. Telurðu skorta á sektarkennd eða iðrun yfirmannsins þegar hann skaðar aðra?
  2. Forðast yfirmaður þinn að taka ábyrgð á gjörðum sínum?
  3. Er sjálfsmynd yfirmannsins stórlega ofmetin?
  4. Er yfirmaðurinn vel máli farinn og yfirborðslega hrífandi?
  5. Er yfirmaðurinn tilfinningakaldur og skortir hluttekningu?
  6. Er yfirmaðurinn sjúklega lyginn?
  7. Er yfirmaðurinn með uppgerðaryfirborð?
  8. Er yfirmaðurinn svindlari eða meistari í að ráðskast með fólk?

Ef yfirmaðurinn fær:

1 – 4 stig: Vertu svekktur.

5 – 7 stig: Vertu varkár.

8 – 12 stig: Vertu hræddur.

13 – 16 stig: Vertu skelfingu lostinn.

Greinin birtist áður í Mannlífi árið 2008. Höfundur er: Þórdís Bachmann.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: